Djúpkarfi (Sebastes mentella)

Djúpkarfi eru hægvaxta, langlíf og seinkynþroska. Slíkar tegundir eru jafnan viðkvæmar fyrir miklu veiðiálagi. Djúpkarfi telst til botnfiska þó hann sé í raun bæði botn- og miðsjávarfiskur. Hann er algengastur á 400–700 m dýpi á landgrunnshallanum í hlýja sjónum vestur, suður og suðaustur af landinu. Hann heldur sig við botn að degi til en leitar upp í sjó að nóttu.

Djúpkarfi á Íslandsmiðum (innan íslensku efnahagslögsögunnar) er skilgreindur sem sérstakur líffræðilegur stofn og sem sérstök stjórnunareining. Einungis veiðistofn djúpkarfans er að finna hér við land og er talið að uppeldissvæði hans sé við strendur Grænlands.

Mjög lítið fæst af djúpkarfa í SMB og hér er því eingöngu fjallað um niðurstöður SMH. Einungis eru skoðuð gögn árin frá árinu 2000, þar sem rannsóknasvæðið árin 1996–1999 náði ekki nema að hluta yfir útbreiðslu djúpkarfans á Íslandsmiðum.

Stofnvísitölur djúpkarfa hefur sveiflast án sýnilegrar langtímaþróunar á rannsóknartímabilinu.

Undanfarin ár hefur magn stærsta djúpkarfans (45 cm og stærri) aukist jafnt og þétt og er nú um 40 % af heildarlífmassa samanborið við um 15 % í upphafi rannsóknartímabilsins.

Vísitala ungfisks (30 cm og minni og er mælikvarði á nýliðun) hefur lækkað mikið frá árinu 2000 þegar vísitalan var um 10 % af heildarfjöldavísitölu. Nánast ekkert hefur fengist af djúpkarfa minni en 30 cm undanfarinn áratug. Bendir það til viðvarandi nýliðunarbrests.

NoteUm vísitölumyndir

Myndirnar sýna ýmsar vísitölur í þyngd og í fjölda. Skyggð svæði sýna 95 % öryggismörk. Hægt er að skoða heildarvísitölur í þyngd og fjölda og samanburð vísitalna í SMB og SMH (hlutfallslegar vísitölur). Einnig eru sýndar vísitölur nokkurra stærðarflokka í þyngd og fjöldavísitölur minnsta fisksins sem gefa vísbendingu um nýliðun.

Djúpkarfinn sem fæst í SMH var í upphafi að mestu á bilinu 30-47 cm langur og toppurinn í lengdardreifingunni í kringum 35–40 cm.

Yfir rannsóknartímabilið hefur lengdardreifingin hliðrast til hægri í stærri fisk. Nú er nær eingöngu djúpkarfi á stærðarbilinu 40–50 cm og toppurinn í lengdardreifingunni er um 45 cm.

Meðallengd djúpkarfa hefur aukist en þessi þróun lengdardreifingar er gott dæmi um það sem gerist þegar nýliðun er léleg, þ.e. meðallengd eykst þar sem lítið fæst af smáum karfa.

NoteUm lengdardreifingar

Myndirnar sýna lengdarskiptar vísitölur (í milljónum) eftir árum.

Aldursgreiningar úr SMH sýna að stofninn samanstendur af mörgum árgöngum og er aldursbilið frá 5 til meira en 50 ára.

Árgangarnir frá 1985 og 1990 voru stórir og eru enn áberandi í stofninum.

Vísbendingar um lélega nýliðun sjást í aldursdreifingunni,þar sem mjög fáir fiskar tíu ára og yngri hafa sést frá árinu 2018.

NoteUm aldursskiptar vísitölur

Myndirnar sýna aldursskiptar vísitölur í þyngd og fjölda. Með því að velja aldurshópa í skýringartextanum hægra megin á myndinni er hægt að skoða stærð hvers hóps sérstaklega.

Taflan sýna fjöldavísitölur eftir aldri. Með því að færa músarbendil yfir einstaka hluta töflunnar er hægt að fylgjast með þróun árganga. Taflan notar bláan litaskala þar sem litadýpt endurspeglar fjölda. Því dekkri sem liturinn er, því hærri er fjöldinn. Fyrir neðan töfluna er mynd sem sýnir stærð árganga á lograkvarða. Bláa línan sýnir meðaltalið yfir tímabilið.

Djúpkarfa er að finna í landgrunnshlíðum Íslands allt frá Rósagarði suðaustur af landinu, meðfram suðurströndinni, á Reykjaneshrygg og norður með landgrunnskantinum fyrir vestan land. Mjög lítið fæst af djúpkarfa fyrir norðan og austan land.

Litlar breytingar hafa orðið á útbreiðslu djúpkarfans þau ár sem rannsóknin hefur farið fram.

Djúpkarfa er að finna á 300–800 m dýpi en mest á 400–600 m. Hlutdeild djúpkarfa sem finnst dýpra en 700 m hefur aukist undanfarin ár.

NoteUm vísitölur eftir dýpi

Myndirnar sýna stofnvísitölur í þyngd skipt eftir dýptarbilum ásamt hlutfallslegri dreifingu eftir dýpi. Með því að velja ákveðið dýptarbil í skýringartextanum er hægt að skoða þróunina innan þess dýptarbils.

NoteUm útbreiðslumyndir

Myndirnar sýna afla (kg á togmílu) í einstaka togum eftir árum. Stærð hringjanna táknar magn afla í hverju togi og því stærri sem hringurinn er, því meiri er aflinn. Með því að færa bendil yfir hringina er hægt að sjá nákvæmar upplýsingar um aflamagn

NoteUm stofnvísitölur eftir svæðum

Myndirnar sýna stofnvísitölur í þyngd skipt eftir svæðum, ásamt hlutfallslegri dreifingu eftir svæðum. Með því að velja ákveðið svæði í skýringartextanum er hægt að skoða þróunina innan þess svæðis.

NoteUm breytingar á útbreiðslu

Skífuritið sýnir tilfærslu afla í stefnu og fjarlægð. Breytingar eru sýndar með línum þar sem stefna línanna gefur til kynna hvar aflamagn var mest, og lengd örvanna sýnir hve afgerandi munurinn er. Stuttar línur benda til að tegundin sé nokkuð jafndreifð umhverfis landið, en lengri línur gefa til kynna hvar mest var af tegundinni. Þar geta stór tog haft töluverð áhrif. Tölurnar vísa til ártala.